Pogba segir Liverpool með aðra hönd á bikarnum

Paul Pogba segir Liverpool eiga skilið að vera með örugga …
Paul Pogba segir Liverpool eiga skilið að vera með örugga forystu á toppnum. AFP

Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, segir Liverpool eiga skilið að vera á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta og með 22 stiga forskot á Manchester City. 

Lærisveinar Jürgen Klopp þurfa aðeins fjóra sigra til viðbótar til að tryggja sér fyrsta Englandsmeistaratitilinn í 30 ár. „Sem leikmaður Manchester United viltu ekki að erkifjendurnir séu að taka titilinn,“ byrjaði Pogba í samtali við ESPN. 

„Við viljum ekki að einhverjir aðrir en við sjálfir séu að vinna titilinn, en sem knattspyrnumaður sem ber virðingu fyrir hinu liðinu verð ég að segja að Liverpool á skilið að vera þar sem liðið er núna.

Þeir eru langt á undan öllum öðrum og  hafa ekki tapað leik. Þeir eru þegar með aðra hönd á bikarnum,“ sagði Pogba sem hefur lítið spilað með United á leiktíðinni vegna meiðsla. 

mbl.is