United missti af nýjustu stjörnunni

Alphonso Davies átti frábæran leik á Stamford Bridge í gær.
Alphonso Davies átti frábæran leik á Stamford Bridge í gær. AFP

Alphonso Davies, bakvörður þýska knattspyrnufélagsins Bayern München, stal senunni í gær þegar Bayern vann 3:0-útisigur gegn Chelsea í fyrri leik leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Stamford Bridge í London. Davies lagði upp þriðja og síðasta mark Bayern á 76. mínútu eftir frábæran sprett upp vinstri kantinn en hann er einungis 19 ára gamall.

Enskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að Davies hefði verið á reynslu hjá Manchester United árið 2017 þegar hann var sautján ára gamall. United ákvað hins vegar að bjóða honum ekki samning en hann gekk til liðs við Bayern síðasta sumar frá Vancouver Whitecaps. Bæjarar lögðu mikla áherslu á að fá leikmanninn sem kostaði í kringum 10 milljónir evra en hann á að baki 17 landsleiki fyrir Kanada.

Davies hefur fengið stórt hlutverk í liði Bayern München á tímabilinu en hann hefur byrjað fimmtán leiki í þýsku 1. deildinni þar sem hann hefur skorað eitt mark og lagt upp önnur fjögur. Þá hefur hann lagt upp tvö mörk í fórum leikjum í Meistaradeildinni í vetur en bakvörðurinn er metinn á tæpar 40 milljónir evra og hefur því hækkað umtalsvert í verði á tæpu ári.

mbl.is