Hreinsanir fram undan hjá Chelsea?

Frank Lampard er sagður ætla að hreinsa duglega til í …
Frank Lampard er sagður ætla að hreinsa duglega til í herbúðum félagsins næsta sumar. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, ætlar sér að hreinsa til í leikmannahópi félagsins næsta sumar en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Lampard tók við stjórnartaumunum hjá félaginu síðasta sumar af Maurizio Sarri en félagið var þá í tveggja ára félagaskiptabanni.

Chelsea fékk því ekki að kaupa leikmenn síðasta sumar en banninu hefur nú verið aflétt og má Chelsea kaupa leikmenn eins og önnur félög þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður næsta sumar. Lampard hefur treyst á unga og efnilega uppalda stráka á þessari leiktíð og situr Chelsea í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 44 stig.

Liðið tapaði hins vegar illa fyrir Bayern München í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Stamford Bridge í vikunni, 3:0. Samkvæmt enskum fjölmiðlum gætu þeir Kepa Arrizabalaga, Kurt Zouma, Emerson, Marcos Alonso, Jorginho, Ross Barkley, Willian og Pedro allir verið á förum frá félaginu næsta sumar.

Chelsea hefur nú þegar tilkynnt um kaupin á Hakim Ziyech frá Ajax og mun hann ganga til liðs við enska félagið næsta sumar. Þá hafa fleiri leikmenn verið orðaðir við félagið að undanförnu, eins og Timo Werner og Jan Oblak og þá er Ben Chilwell, vinstri bakvörður Leicester, sagður á óskalista Chelsea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert