Leitaði ráða hjá fyrrverandi United-manni

Takumi Minamino gekk til liðs við Liverpool í janúarglugganum.
Takumi Minamino gekk til liðs við Liverpool í janúarglugganum. AFP

Takumi Minamino gekk til liðs við enska knattspyrnufélagið Liverpool í janúarglugganum síðasta en Liverpool borgaði Red Bull Salzburg rúmlega sjö milljónir punda fyrir japanska sóknarmanninn. Þessi 25 ára gamli leikmaður heillaði Jürgen Klopp þegar Liverpool mætti Salzburg í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Minamino viðurkenndi það í viðtali á dögunum að hann hefði leitað ráða hjá Shinji Kagawa, fyrrverandi leikmanni Manchester United, áður en hann gekk til liðs við Liverpool. Kagawa lék með United á árunum 2012 til ársins 2014 en hann kom til félagsins frá Borussia Dortmund í Þýskalandi fyrir tólf milljónir punda.

„Ég ráðfærði mig við nokkra leikmenn áður en ég fór til Liverpool,“ sagði Minamino. „Einn af þeim var Maya Yoshida hjá Southampton og svo Shinji Kagawa, liðsfélaga minn í japanska landsliðinu. Kagawa talaði mjög vel um England og auðvitað Jürgen Klopp en þeir unnu saman hjá Dortmund á sínum tíma.“

„Kagawa sagði að Klopp væri einn besti knattspyrnustjóri heims og að þeir hefðu alltaf átt mjög gott samband. Eftir að hafa unnið með Klopp í nokkrar vikur er erfitt að horfa fram hjá því hversu frábær stjóri hann er. Það er frábært að vinna með honum og hann er klárlega einn sá besti í heiminum í dag,“ bætti Japaninn við.

mbl.is