Vissum hvað við fengjum með Odion

Odion Ighalo kemur Manchester United í 2:0 í leiknum í …
Odion Ighalo kemur Manchester United í 2:0 í leiknum í kvöld. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United kvaðst afar ánægður með nýju mennina sína og reyndar liðið allt eftir stórsigurinn á Club Brugge, 5:0, í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar á Old Trafford í kvöld.

United nýtti sér vel þegar Belgarnir misstu mann af velli snemma leiks með rautt spjald og unnu einvígið 6:1 samanlagt.

Nígeríumaðurinn umtalaði Odion Ighalo var í fyrsta skipti í byrjunarliðinu og skoraði annað mark liðsins en hann kom á síðustu stundu í janúarglugganum sem lánsmaður frá Shanghai Shenhua í Kína.

„Hann gerir það sem okkur vantaði, er fremstur og getur tekið við boltanum þar og haldið honum. Markið sem hann var gerði var nákvæmlega það sem við vildum fá frá Odion — boltinn fór yfir hann, hann var snöggur að snúa, komst fram fyrir miðvörðinn og ýtti boltanum í netið. Þetta hefur vantað hjá okkur. Það eru góð kaup í honum, við vissum hvað við fengjum þegar við náðum í Odion,“ sagði Solskjær við BT Sport.

Sigur United er sá fimmti í síðustu sjö leikjunum og Solskjær kvaðst ánægður með viðsnúninginn sem væri ekki síst nýju mönnunum að þakka.

„Við fáum ekki á okkur mörk, það er góð byrjun. En í kvöld vildu menn leika sóknarfótbolta og gerðu það, þeir spiluðu af sjálfsöryggi og með bros á vör, og það hefur komið með nýju strákunum,“ sagði Solskjær en Bruno Fernandes kom liðinu á bragðið með fyrsta markinu úr vítaspyrnu.

mbl.is