Hjá Liverpool út ferilinn?

Virgil van Dijk er besti varnarmaður heims í dag.
Virgil van Dijk er besti varnarmaður heims í dag. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool ætlar að bjóða Virgil van Dijk, varnarmanni félagsins, nýjan betrumbættan samning og gera hann að launahæsta varnarmanni heims en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Van Dijk kom til Liverpool frá Southampton í janúar 2018 en Liverpool borgaði 75 milljónir punda fyrir hollenska miðvörðinn.

Van Dijk er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2023 og á því enn þá þrjú ár eftir af samningi sínum. Enskir fjölmiðlar segja að Liverpool sé tilbúið að bjóða honum langtímasamning sem myndi gera það að verkum að Hollendingurinn myndi að öllum líkindum klára ferilinn á Anfield en hann er 28 ára gamall.

Þá myndi van Dijk þéna í kringum 50 milljónir punda á samningstímanum en bónusgreiðslur til leikmannsins eru ekki inni í þessari tölu. Van Dijk var tilnefndur sem besti leikmaður heims á síðasta tímabili og endaði í öðru sæti á eftir Lionel Messi í kjörinu. Van Dijk hefur spilað 109 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 11 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert