Sér eftir öllu í máli Suárez og Evra

Luis Suárez og Patrice Evra í leiknum umdeilda árið 2011.
Luis Suárez og Patrice Evra í leiknum umdeilda árið 2011. © Phil Noble / Reuters

Damien Co­molli, fyrr­ver­andi íþrótta­stjóri Li­verpool, er fullur eftirsjár og iðrandi yfir hegðun sinni og félagsins þegar Luis Suárez var úrskurðaður í átta leikja bann árið 2011 fyrir kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra, þegar þeir léku með Liverpool og Manchester United.

Suárez neitaði sök í málinu og Liverpool barðist gegn rannsókn enska knattspyrnusambandsins með kjafti og klóm. Leikmenn Liverpool hituðu eftirminnilega upp fyrir næsta leik liðsins, eftir úrskurðinn, í sérstaklega merktum bolum til að sýna Úrúgvæjanum stuðning. Þegar erkifjendurnir mættust nokkrum mánuðum síðar á Old Trafford neitaði Suárez svo að taka í hönd Evra fyrir leik.

Comolli, sem hætti störfum hjá Liverpool árið 2012, segist „sjá eftir öllu“ varðandi hvernig Liverpool tók á málinu.

Einangruðum okkur frá umheiminum

„Ég sé eftir meira og minna öllu,“ sagði hann í viðtali við The Athletic. „Ég sé eftir viðhorfi okkar, hvernig við nálguðumst málið, hvernig ég brást við í dómstól knattspyrnusambandsins. Þetta var sennilega versti tími ferilsins.“

„Við einangruðum okkur frá umheiminum og það var rangt. Við hefðum átt að taka við leiðsögn utan frá, bæði lögfræðiráðgjöf og varðandi almannatengsl.“

Comolli segir að eigendurnir hafi verið meðvirkir í málinu og að allir tengdir félaginu hafi bundist því of sterkum tilfinningalegum tengslum. „Þú hefðir átt að sjá viðbrögð eigendanna,“ sagði hann í viðtalinu. „Þeir voru meira en tilbúnir að styðja Luis og vera með honum í liði. Allir voru fastir í þessum tilfinningastormi, þetta var allt rangt.“

Comolli er ekki sá fyrsti frá Liverpool til að biðjast afsökunar á máli Suárez og Evra nýlega. Jamie Carragher og Glen Jonhson, sem báðir voru leikmenn Liverpool á þessum tíma, hafa opinberlega beðið Frakkann afsökunar og fordæmt hvernig félagið tók á málinu.

mbl.is