Leikmaður Tottenham hljóp upp í stúku (myndskeið)

Eric Dier í leiknum við Norwich í kvöld.
Eric Dier í leiknum við Norwich í kvöld. AFP

Eric Dier, miðjumaður Tottenham, hljóp upp í stúkuna á leikvangi félagsins eftir ósigurinn gegn Norwich í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar í kvöld og reyndi að komast að áhorfanda. Svo virðist sem sá hafi veist að bróður hans eftir leikinn.

Myndskeið sem birtust á samfélagsmiðlum sýndu Dier hlaupa meðfram hliðarlínunni eftir leikinn, stökkva yfir auglýsingaskilti og hlaupa yfir sæti í stúkunni þar sem hann virtist stefna á einn tiltekinn áhorfanda, án þess þó að ná til hans þar sem aðrir áhorfendur komu í veg fyrir það.

Dier var leiddur burt úr stúkunni af öryggisvörðum en nokkur myndskeið af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.

José Mourinho knattspyrnustjóri Tottenham varði sinn mann á fréttamannafundi eftir leikinn.

„Ég get ekki skotið mér undan þessari spurningu og ég tel að það sem Erik Dier gerði getum við sem erum atvinnumenn í fótbolta ekki gert, en samt myndi hver og einn okkar gera þetta við þessar kringumstæður,“ sagði Mourinho.

„Þegar einhver segir niðrandi orð um þig og fjölskyldan þín er á staðnum, og fer að eiga við þann sem talaði til þín á niðrandi hátt, í þessu tilviki var það yngri bróðir Erics, þá gerði hann það sem atvinnumaður á ekki að gera.

En ég endurtek, sennilega hefðum við allir brugðist svona við. Ég styð leikmanninn og skil hann,“ sagði Mourinho.

Spurður hvort félagið muni refsa Dier fyrir athæfið svaraði Mourinho: „Geri félagið það verður það ekki með mínu samþykki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert