Gerði nýjan samning 72 ára gamall

Roy Hodgson verður áfram knattspyrnustjóri Crystal Palace.
Roy Hodgson verður áfram knattspyrnustjóri Crystal Palace. AFP

Roy Hodgson heldur áfram störfum sem knattspyrnustjóri enska félagsins Crystal Palace en fyrir stundu var tilkynnt að hann hefði framlengt samning sinn við félagið um eitt ár, eða til vorsins 2021.

Hann tók við Palace í september 2017 eftir mjög slæma byrjun liðsins í ensku úrvalsdeildinni, hélt því uppi og liðið hefur síðan verið að mestu um deildina miðja.

„Ég er afar ánægður með að samkomulag við félagið skuli vera í höfn. Ég er stoltur af því hverju við höfum náð eftir að ég tók  við liðinu," sagði Hodgson á vef Crystal Palace en hann er 72 ára gamall.

Hodgson ólst sjálfur upp hjá Crystal Palace en náði aldrei að spila fyrir félagið og hans ferill sem leikmaður var allur hjá utandeildaliðum. Hann tók hins vegar 29 ára gamall við þjálfun sænska félagsins Halmstad sem varð tvívegis sænskur meistari undir hans stjórn á fjórum árum.

Lengi vel þjálfaði Hodgson utan Englands, var áfram í Svíþjóð 1982 til 1989, lengst af með Örebro og Malmö. Hann var í Sviss í fimm ár, þjálfaði Neuchatel Xamax og síðan svissneska landsliðið. Þá stýrði hann Inter Mílanó í tvö ár og Blackburn Rovers varð hans fyrsta félag í ensku úrvalsdeildinni frá 1997 til 1999.

Eftir það stýrði Hodgson Grasshoppers í Sviss, FC København í Danmörku, Udinese á Ítalíu, var landsliðsþjálfari Sameinuðu arabísku furstadæmanna, þjálfaði Viking í Noregi í tvö ár þar sem hann gaf einmitt Birki Bjarnasyni sitt fyrsta tækifæri í meistaraflokki, þjálfaði finnska landsliðið 2006 til 2007 en frá þeim tíma hefur hann starfað á Englandi.

Hodgson stýrði Fulham 2007 til 2010, Liverpool 2010 til 2011, WBA 2011 til 2012 og síðan enska landsliðinu frá 2012 til 2016. Hann sagði af sér landsliðsþjálfarastarfinu eftir tapið fræga gegn Íslandi á EM í Nice sumarið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert