Chelsea burstaði Gylfa og félaga

Leikmenn Chelsea fagna einu marka sinna á Stamford Bridge í …
Leikmenn Chelsea fagna einu marka sinna á Stamford Bridge í dag. AFP

Chelsea burstaði Everton 4:0 á Stamford Bridge í viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, var að snúa aftur á sinn gamla heimavöll en hann gerði lið Chelsea að Englandsmeistara árið 2010.

Margir bjuggust við jöfnum og spennandi leik en heimamenn voru snöggir að setja tóninn. Mason Mount kom þeim í forystu 12. mínútu með laglegu hnitmiðuðu skoti í nærhornið eftir sendingu frá Willian og forystan var tvöfölduð tíu mínútum síðar. Ross Barkley sendi þá Pedro einn gegn markmanni og hann skoraði framhjá Jordan Pickford. Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton og spilað allan leikinn, lengst af á vinstri kantinum en var svo færður inn á miðjuna í síðari hálfleik. Hann var í litlum takti við leikinn, líkt og aðrir leikmenn Everton.

Dominic Calvert-Lewin brenndi af besta færi Everton fyrir hálfleik en annars var um einstefnu að ræða á Stamford Bridge. Willian bætti við marki á 51. mínútu með föstu skoti utan teigs og þremur mínútum síðar var stórsigurinn innsiglaður þegar Olivier Giroud potaði boltanum inn af stuttu færi eftir fyrirgjöf Willians.

Chelsea er nú með 48 stig í 4. sætinu, tveimur stigum frá Leicester í því þriðja. Everton er aftur á móti enn í 12. sæti með 37 stig og að dragast aftur úr í baráttunni um Evrópusæti.

Everton-maðurinn Tom Davies umkringdur þeim Cesar Azpilicueta og Willian á …
Everton-maðurinn Tom Davies umkringdur þeim Cesar Azpilicueta og Willian á Stamford Bridge í dag. AFP
Chelsea 4:0 Everton opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert