Kærkominn stórsigur Leicester

Leicester vann öruggan sigur á Aston Villa.
Leicester vann öruggan sigur á Aston Villa. AFP

Leicester vann í kvöld sinn fyrsta sigur í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta síðan 22. janúar er liðið keyrði yfir granna sína í Aston Villa á heimavelli, 4:0. 

Leikurinn var rólegur framan af en Harvey Barnes nýtti sér mistök Pepes Reina í marki Aston Villa og skoraði fyrsta markið á 40. mínútu og var staðan í hálfleik 1:0. 

Jamie Vardy kom inn á sem varamaður á 59. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar skoraði hann annað mark Leicester úr vítaspyrnu. Hann lét ekki staðar numið því hann skoraði annað markið sitt og þriðja mark Leicester á 79. mínútu. 

Harvey Barnes gulltryggði 4:0-sigur með öðru marki sínu fimm mínútum fyrir leikslok og þar við sat.

Leicester er í þriðja sæti með 53 stig, fimm stigum á undan Chelsea sem er í fjórða sæti og fjórum stigum á eftir Manchester City í öðru sæti. Aston Villa er í næstneðsta sæti með 25 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert