Brighton staðfestir frestun á Arsenal-leiknum

Mikel Arteta er knattspyrnustjóri Arsenal.
Mikel Arteta er knattspyrnustjóri Arsenal. AFP

Enska knattspyrnufélagið Brighton staðfesti fyrir stundu að fyrirhuguðum leik liðsins gegn Arsenal í úrvalsdeildinni á laugardaginn hefði verið frestað.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur greinst með kórónuveiruna en frá því var skýrt í kvöld.

Brighton sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagt var að hugur félagsins væri fyrst og fremst hjá Arteta og honum væri óskað góðs bata.

„Heilsa og velferð einstaklinga hefur algjöran forgang og þess vegna hefur leiknum á laugardaginn verið frestað. Við biðjum alla stuðningsmenn velvirðingar á óþægindunum en treystum því að allir skilji að við eigum í höggi við aðstæður sem við höfum aldrei áður kynnst," segir m.a. í yfirlýsingunni.

Ennfremur: „Úrvalsdeildin tilkynnti í kvöld að neyðarfundur með öllum félögunum yrði haldinn í fyrramálið og við munum upplýsa stuðningsmenn okkar um leikjadagskrána sem framundan er um leið og við getum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert