Sá fyrsti í ensku úrvalsdeildinni

Callum Hudson-Odoi er með kórónuveiruna.
Callum Hudson-Odoi er með kórónuveiruna. AFP

Callum Hudson-Odoi, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, greindist með kórónuveiruna í gær en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu í dag. Í gær var greint frá því að Mikel Arteta, stjóri Arsenal, væri með veiruna og er Hudson-Odoi fyrsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar til að greinast með hana.

Þrír leikmenn Leicester City eru í sóttkví vegna veirunnar og þá er Benjamin Mendy, varnarmaður Manchester City, í sóttkví eftir að náinn fjölskyldumeðlimur hans greindist með veiruna. Samkvæmt enskum fjölmiðlum þykir nú líklegt að næstu tveimur leikjum Chelsea, gegn Aston Villa og Bayern München, verði frestað vegna málsins.

Eftir að Hudson-Odoi greindist sendi Chelsea frá sér yfirlýsingu þar sem tilkynnt var að allir leikmenn aðalliðsins væru á leið í sóttkví og þá mun einnig hluti af þjálfarateyminu fara í sóttkví. Chelsea á að mæta Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á morgun og þá mætir liðið Bayern í síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Þýskalandi á miðvikudaginn en Bayern vann fyrri leikinn 3:0 á Stamford Bridge.

mbl.is