Brady vill að tímabilið verði þurrkað út

Tímabilið hjá West Ham hefur verið erfitt.
Tímabilið hjá West Ham hefur verið erfitt. AFP

Karren Bra­dy, vara­formaður stjórn­ar enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins West Ham, vill að yfirstandandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni verði dæmt ógilt og þurrkað út vegna kórónuveirunnar. Vill hún að undirbúningur fyrir næsta tímabil hefjist í staðinn. 

Enska deild­in verður í fríi til að minnsta kosti 4. apríl vegna veirunn­ar, sem hef­ur smitað yfir 130.000 manns á heimsvísu. Forráðamenn deildarinnar munu funda í næstu viku og ræða um mögulegar lausnir.

„Það er ekki hægt að líta framhjá þeim möguleika að tímabilið þurrkist út því leikmenn geta ekki spilað leikina. Úrvalsdeildin vonast til að geta spilað aftur eftir þrjár vikur en það er óraunhæft,“ skrifaði hún í dálk fyrir The Sun. 

Tímabilið hjá West Ham hefur verið mjög erfitt og er liðið fyrir ofan fallsæti á markatölu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert