Eins og þeir væru að bíða eftir dauðsfalli

Angelo Ogbonna í leiknum gegn Arsenal.
Angelo Ogbonna í leiknum gegn Arsenal. AFP

Knattspyrnumaðurinn Angelo Ogbonna hjá West Ham á Englandi er allt annað en sáttur við forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar og viðbrögð þeirra við útbreiðslu kórónuveirunnar. Sakar hann þá um að stefna leikmönnum í hættu. 

„Það var eins og þeir væru að hunsa vandamálið eða bíða eftir dauðsfalli til að gera eitthvað,“ sagði Ogbonna við ítalska dagblaðið Corriera della Sera. Hann var ánægður með að ensku deildunum hafi verið frestað en hann skaut á viðbrögð Englands við útbreiðslu veirunnar. 

„Þetta á ekki bara við um fótboltann heldur er þetta enska hugarfarið. Það er eins og þeir fatti ekki að það tekur bara eina sekúndu fyrir fólk að smitast. Ég hef ekki farið í neitt próf eða neitt,“ sagði Ogbonna pirraður.

Hann fordæmdi þá ákvörðun að leikur West Ham og Arsenal skyldi fara fram fyrr í mánuðinum. „Þetta er algjörlega óviðunandi. Þeir voru að spila við Olympiacos og forsetinn þeirra var með veiruna,“ sagði ítalski varnarmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert