Yfirgaf sóttkví í leyfisleysi

Mason Mount gæti fengið skammir frá knattspyrnustjóra sínum Frank Lampard …
Mason Mount gæti fengið skammir frá knattspyrnustjóra sínum Frank Lampard fyrir að brjóta reglur félagsins. AFP

Mason Mount, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, á von á hárri fjársekt frá félaginu eftir að hafa yfirgefið sóttkví, sem hann var skikkaður í vegna kórónuveirunnar, í leyfisleysi. Á föstudaginn varð Callum Hudson-Odoi, leikmaður Chelsea, fyrsti leikmaður deildarinnar til þess að greinast með veiruna og því voru allir leikmenn Chelsea sendir í sóttkví.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Mount hafi sést leika sér í fótbolta á Trent Park-fótboltasvæðinu utan við London ásamt Declan Rice, miðjumanni West Ham. „Ég fór með 14 ára gamlan son minn á æfingasvæðið rétt utan við London,“ sagði einn sjónarvottur sem sá til bæði Mount og Rice, sem leikur með West Ham.

„Við sáum bíl sem leit frekar sérkennilega út miðað við aðra bíla á svæðinu. Stuttu síðar mætti annar bíll á svæðið með þremur til fjórum manneskjum innanborðs. Sonur minn þekkti Mason Mount strax. Þeir fóru út úr bílunum og léku sér í fimm manna bolta,“ bætti sjónarvotturinn við, en fréttirnar fara eflaust ekki vel í Frank Lampard, stjóra Chelsea, sem er einnig í sóttkví. 

mbl.is