Frá Liverpool til London í sumar?

Dejan Lovren í leik með Liverpool gegn Watford í vetur.
Dejan Lovren í leik með Liverpool gegn Watford í vetur. AFP

Lundúnaliðin Arsenal og Tottenham hafa bæði hug á að kaupa króatíska miðvörðinn Dejan Lovren af Liverpool í sumar, að sögn Sky Sports.

Lovren á rúmlega eitt ár eftir af samningi sínum við Liverpool, sem er sagt tilbúið að láta hann fara eftir þetta tímabil, frekar en að missa hann án greiðslu ári síðar.

Lovren hefur sigið niður í fjórða sætið í baráttunni um miðvarðastöðurnar tvær hjá Liverpool, á eftir Virgil van Dijk, Joe Gomez og Joel Matip. 

Króatinn er þrítugur og hefur spilað 130 úrvalsdeildarleiki fyrir Liverpool og samtals 184 mótsleiki síðan hann kom til félagsins frá Southampton árið 2014. Hann var í liði Króata sem fékk silfurverðlaunin á HM í Rússlandi 2018.

mbl.is