Fyrrverandi leikmaður Liverpool til Chelsea?

Philippe Coutinho gæti verið að snúa aftur til Englands.
Philippe Coutinho gæti verið að snúa aftur til Englands. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur áhuga á Philippe Coutinho, sóknarmanni Barcelona og fyrrverandi leikmanni Liverpool, en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Coutinho er samningsbundinn Barcelona til ársins 2023 en hann er sem stendur á láni hjá Þýskalandsmeisturum Bayern München.

Barcelona borgaði Liverpool 142 milljónir punda fyrir leikmanninn í janúar 2018 en Brasilíumaðurinn á ekki mikla framtíð fyrir sér á Spáni samkvæmt fréttum frá Katalóníu. Bayern München er með forkaupsrétt að leikmanninum og getur keypt hann á 120 milljónir evra eftir tímabilið en þýska félagið ætlar ekki að nýta sér forkaupsréttinn.

Þá er Inter Mílanó einnig sagt áhugasamt um leikmanninn sem er metinn á 70 milljónir evra í dag. Þá hefur Coutinho einnig verið orðaður við endurkomu til Liverpool en Jürgen Klopp er sagður opinn fyrir því að fá hann aftur á Anfield. Coutinho spilaði 201 leik fyrir Liverpool í öllum keppnum frá árinu 2013 þar sem hann skoraði 54 mörk. 

mbl.is