Á förum frá Liverpool eftir stutt stopp?

Naby Keita hefur ekki náð sér á strik í búningi …
Naby Keita hefur ekki náð sér á strik í búningi Liverpool. AFP

Naby Keita, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er orðaður við brottför frá félaginu í bæði enskum og þýskum fjölmiðlum í dag. Keita kom til Liverpool frá RB Leipzig sumarið 2018 en Liverpool borgaði 59 milljónir punda fyrir miðjumanninn í ágúst 2017 og var hann um tíma dýrasti leikmaður í sögu félagsins. 

Keita hefur hins vegar engan veginn náð sér á strik í búningi Liverpool en miklar vonir voru bundnar við þennan 25 ára gamala miðjumann. Hann hefur verið afar óheppinn með meiðsli síðan hann kom til Liverpool og hefur hann misst af 27 leikjum í öllum keppnum með félaginu frá árinu 2018.

Keita er samningsbundinn Liverpool til ársins 2023 en vöðvameiðsli hafa angrað hann einna mest á tíma sínum hjá Liverpool. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er sagður íhuga það alvarlega að selja hann í sumar en hann er metinn á um 40 milljónir punda í dag og því ljóst að Liverpool myndi tapa á því að selja hann á þessum tímapunkti.

mbl.is