Vandræðagemsinn loksins á förum?

Paul Pogba hefur aðeins byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni …
Paul Pogba hefur aðeins byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er á förum frá félaginu í sumar en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. United er tilbúið að selja leikmanninn eftir fjögur ár á Old Trafford en hann kom til félagsins frá Juventus haustið 2016 fyrir tæplega 90 milljónir punda og var um tíma dýrasti knattspyrnumaður heims.

Pogba er samningsbundinn United til ársins 2021 en United getur framlengt þann samning um eitt ár. Pogba reyndi að komast burt frá félaginu síðasta sumar en United vildi þá fá 150 milljónir punda fyrir franska landsliðsmanninn. Ekkert félag var tilbúið að borga uppsett verð fyrir Pogba síðasta sumar og hann var því áfram í herbúðum félagsins.

Í sumar er United sagt tilbúið að sætta sig við 100 millljónir punda, bara til þess að losna við leikmanninn, en forráðamenn félagsins eru orðnir þreyttir á farsanum í kringum Pogba og umboðsmann hans Mino Raiola. Raiola hefur komið fram í fjölmiðlum á tímabilinu og talað um að Pogba sé ósáttur í herbúðum félagsins.

Pogba hefur lítið sem ekkert spilað með United á tímabilinu vegna meiðsla. Hann hefur aðeins byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur lagt upp tvö mörk. Pogba á að baki 150 leiki fyrir United í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 31 mark en Juventus og Real Madrid eru bæði sögð áhugasöm um leikmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert