Gefur sjúkrahúsum tugi spjaldtölva

Toby Alderweireld
Toby Alderweireld AFP

Knattspyrnumaðurinn Toby Alderweireld, leikmaður Tottenham á Englandi, hefur gefið sjúkrahúsum í Lundúnum tugi spjaldtölva til að auðvelda þeim sem þar liggja veikir að eiga í samskiptum við fjölskyldur sínar.

Margir knattspyrnumenn hafa að undanförnu lagt sitt af mörkum til að hjálpa í baráttunni gegn útbreiðslu kórónuveirunnar og Belginn hefur nú lagt hönd á plóg.

„Ég vona að allir fari að fyrirmælum yfirvalda til að sporna við kórónuveirunni,“ skrifar hann á twittersíðu sína en Alderweireld skrifaði nýlega undir nýjan samning við Tottenham og verður nú hjá félaginu til 2023. Hann er 31 árs og hefur spilað yfir 200 leiki fyrir félagið frá 2015.

mbl.is