Arsenal-maður sendir skýr skilaboð

Gabriel Martinelli er þegar búinn að skora tíu mörk fyrir …
Gabriel Martinelli er þegar búinn að skora tíu mörk fyrir Arsenal. AFP

Gabriel Martinelli, átján ára gamall Brasilíumaður, hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vetur og fyrir vikið verið orðaður við félög á borð við Real Madrid.

Arsenal keypti Martinelli fyrir sjö milljónir punda frá Ituano í Brasilíu síðasta sumar og hann hefur skorað 10 mörk í 26 leikjum á yfirstandandi keppnistímabili. Fyrir nokkrum vikum birtust fréttir um að Real Madrid væri tilbúið til að greiða 50 milljónir punda til þess að fá strákinn í sínar raðir.

Martinelli er samningsbundinn Arsenal til 2024 og segir nú að hann sjái fyrir sér langa dvöl hjá félaginu og kveðst ætla að vinna hugi og hjörtu stuðningsmanna Lundúnaliðsins.

„Ég vil vinna Meistaradeildina og fullt af titlum á Englandi til þess að gleðja stuðningsmenn Arsenal. Þeir eiga allt það besta skilið, ekki bara stuðningsmennirnir heldur allt starfslið félagsins. Ég vil gefa af mér til baka til allra hjá þessu félagi eftir allt það sem það hefur gert fyrir mig, og komast í hóp goðsagna Arsenal," sagði Martinelli í viðtali við FourFourTwo.

Meðal þeirra sem hafa látið í ljós skoðanir sínar á hæfileikum Martinelli er Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sem sagði í viðtali á vef Liverpool að Brasilíumaðurinn væri ótrúlegur framherji og eitt mesta efni sem fram hefði komið á þessari öld.

Unai Emery fékk Martinelli til Arsenal en var rekinn í vetur og Mikel Arteta tók við liðinu. Martinelli er afar ánægður með nýja stjórann. „Hann hefur verið frábær, setur stöðuga pressu á mig um að bæta minn leik, ekki bara í sókn heldur líka í vörn. Hann er mjög klókur hvað leikskipulag varðar og hjálpar mér ótrúlega mikið. Hann er alls ekki leiðinlegur, en hann vill sýna manni nákvæmlega hvað á að gera á vellinum. „Ef boltinn fer þangað, ekki standa kyrr, farðu þangað og snúðu svona." Hann er svo klár í smáatriðunum," segir Martinelli um Arteta.

mbl.is