Leikmenn Napoli orðaðir við Everton

Allan í leik með Napoli í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð.
Allan í leik með Napoli í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, ætlar sér að gera nokkrar breytingar á leikmannahópi sínum í sumar en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Allan, miðjumaður Napoli, er ofarlega á óskalista Ancelotti en þeir þekkjast vel eftir að hafa unnið saman hjá Napoli á árunum 2018 til ársins 2019.

Allan er 29 ára gamall Brasilíumaður en hann á þrjú ár eftir af samningi sínum á Ítalíu. Hann er verðmetinn á 40 milljónir evra. Þá er senegalski miðvörðurinn Kalidou Koulibaly einnig sagður ofarlega á óskalista Ancelotti. Koulibaly er hins vegar eftirsóttur af mörgum stórum liðum og því ólíklegt að hann fari til Everton. 

Varnarmaðurinn er 28 ára gamall en hann er metinn á 70 milljónir evra. Napoli hefur ekki gengið vel á þessari leiktíð en liðið er í sjötta sæti ítölsku A-deildarinnar með 39 stig þegar tólf umferðir eru eftir af tímabilinu. Napoli er níu stigum frá Meistaradeildarsæti en liðið hefur verið í harðri toppbaráttu undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert