Vilja gera skiptin varanleg

Odion Ighalo hefur staðið sig mjög vel síðan hann gekk …
Odion Ighalo hefur staðið sig mjög vel síðan hann gekk til liðs við United. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United er nú í viðræðum við kínverska félagið Shanghai Shenhua um kaup enska liðsins á framherjanum Odion Ighalo en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu.

Ighalo er sem stendur á láni hjá enska félaginu en hann hefur skorað fjögur mörk í átta leikjum fyrir United á tímabilinu.

Lánssamningur Ighalo rennur út í sumar en United er tilbúið að borga í kringum 15 milljónir punda fyrir nígeríska framherjann sem er þrítugur að árum. Enskir fjölmiðlar segja að forráðamenn United séu sannfærðir um að þeir geti klárað kaupin á næstu dögum en tímablið á Englandi gæti dregist eitthvað fram á næsta haust vegna kórónuveirunnar.

Manchester United er sem stendur í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 45 stig eftir 29 spilaða leiki. Liðið er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti en Ighalo var fenginn til félagsins eftir að ljóst var að enski landsliðsmaðurinn Marcus Rashford myndi missa af stórum hluta leiktíðarinnar vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert