Hættir hjá Chelsea þegar samningurinn rennur út

Pedro
Pedro AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Pedro ætlar að hætta hjá enska úrvalsdeildarliðinu Chelsea í sumar en hann segist þó lítið hugsa um framtíð sína á meðan heimurinn berst gegn útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Ég ætla ljúka mínum samningi en það er ekki það mikilvægasta núna, ég hugsa lítið um það,“ er haft eftir Pedro í Cadena Ser en Spánverjinn er 32 ára. Hann gekk til liðs við Chelsea frá Barcelona árið 2015 og hefur spilað 201 leik fyrir Lundúnaliðið, orðið enskur deildar- og bikarmeistari ásamt því að vinna Evrópudeildina með liðinu.

Samningur hans við Chelsea á að renna út í sumar og honum er því frjálst að hefja viðræður við önnur félög. Pedro segist þó einbeita sér að því að vera með fjölskyldunni og sýna öllum samstöðu í baráttunni gegn heimsfaraldrinum.

„Það sem skiptir öllu máli núna er að sýna samstöðu. Hvað sem gerist í framtíðinni minni skiptir ekki máli núna, við vitum ekki einu sinni hvenær við byrjum að æfa aftur.“

mbl.is