Þetta eru skrýtnir tímar

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði síðast fótbolta 8. mars síðastliðinn.
Gylfi Þór Sigurðsson spilaði síðast fótbolta 8. mars síðastliðinn. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni, var gestur í Bítinu á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi.is í morgun. Það er orðið langt síðan íslenski landsliðsmaðurinn spilaði fótbolta síðast en Everton er eitt af fyrstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar þar sem allir leikmenn liðsins voru sendir í sóttkví eftir hugsanlegt kórónuveirusmit innan hópsins.

„Þetta eru svolítið skrýtnir tímar núna,“ sagði Gylfi í samtali við þá Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason. „Það eru þrjár vikur þangað til að við eigum að æfa næst með liðinu og við erum flestir að hjóla og reyna að hlaupa eitthvað heima,“ sagði Gylfi sem er ekki mikið að skokka utandyra. „Ég er búinn að gera það tvisvar til þrisvar sinnum en malbikið er ekki að fara rosalega vel í mig því miður. Ég reyni kannski að hjóla meira heldur en að hlaupa á malbikinu.“

Gylfi hefur ekki aðgang að æfingasvæði Everton né æfingasal en þar var skellt í ljós þegar leikmaður liðsins var grunaður um að vera smitaður af veirunni. „Það er bannað og þeir gerðu það bara strax tveimur eða þremur dögum áður en við áttum að spila við Liverpool. Þá var bara lokað og okkur sagt að vera heima þangað til að okkur er sagt að mæta aftur.“

„Þeir sem halda utan um liðið og þeir sem eru í stjórninni hafa verið í sambandi við okkur um framhaldið og hvað við eigum að gera, bæði varðandi æfingar og hvort við eigum að fara út eða vera bara heima. Við fáum reglulega upplýsingar frá liðinu,“ bætti íslenski landsliðsmaðurinn við í samtali við Bítið á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert