Fékk kórónuveiruna en er farinn að æfa á ný

Callum Hudson-Odoi.
Callum Hudson-Odoi. AFP

Fyrsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu sem greindist með kórónuveiruna, táningurinn Callum Hudson-Odoi hjá Chelsea, er kominn á kreik á ný og farinn að æfa aftur utanhúss.

Hudson-Odoi, sem er 19 ára gamall, hefur lokið sóttkví í kjölfar þess að hafa greinst með veiruna og skýrt var frá því á samfélagsmiðlum að hann hefði farið á sína fyrstu æfingu utanhúss í dag. Hann skýrði frá því sjálfur 13. mars að hann hefði greinst en kveðst hafa verið ágætlega hress allan tímann.

Lið Chelsea mun ekki koma saman til æfinga á ný fyrr en í fyrsta lagi 6. apríl þannig að Hudson-Odoi æfir einn og sér eins og aðrir leikmenn til þess tíma.

mbl.is