Brasilíumaðurinn að renna Everton úr greipum?

Gabriel Magalhaes, til hægri, í leik með Lille gegn Nantes.
Gabriel Magalhaes, til hægri, í leik með Lille gegn Nantes. AFP

Líkurnar á að enska knattspyrnufélagið Everton kræki í brasilíska varnarmanninn Gabriel Magalhaes frá Lille í Frakklandi virðast hafa minnkað talsvert.

Leikmaðurinn hefur skýrt frá því á Instagram að hann sé búinn að skrifa undir nýjan samning við Lille og hlakki til næsta tímabils.

Samkvæmt fréttum enskra fjölmiðla undanfarið var Gabriel, eins og hann er jafnan kallaður, búinn að gangast undir læknisskoðun í kjölfar tilboðs frá Everton en síðan frestaðist allt vegna kórónuveirunnar. Þá sagði Sky Sports í dag að þrjú önnur félög, tvö ítölsk og eitt enskt, væru búin að bætast í hóp þeirra sem vildu fá Gabriel í sínar raðir.

Gabriel kom til Lille frá Brasilíu árið 2017 og lék sem lánsmaður með Troyes í Frakklandi og Dinamo Zagreb í Króatíu áður en hann festi sig í sessi hjá félaginu og þykir nú eitt mesta efnið í Evrópufótboltanum. Hann hefur leikið með U20 ára landsliði Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert