Fann strax á mér að ég væri smitaður

Mikel Arteta fékk kórónuveiruna og er búinn að ná sér …
Mikel Arteta fékk kórónuveiruna og er búinn að ná sér að fullu. AFP

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal segir að hann hafi óttast að smita lið sitt og alla í kringum sig þegar hann komst að því að hann væri með kórónuveiruna, fyrstur allra þeirra sem tengjast liðum í ensku úrvalsdeildinni.

Arsenal mætti Olympiacos frá Grikklandi í Evrópudeildinni í lok febrúar og eftir seinni leik liðanna í London kom á daginn að eigandi gríska félagsins, Evangelos Marinakis, sem jafnframt er eigandi Nottingham Forest, væri með veiruna.

Forráðamenn gríska félagsins létu kollega sína hjá Arsenal vita hvað væri í gangi og þar með fór allt af stað og viðureign Arsenal og Manchester City var frestað. Í kjölfarið var síðan öllum leikjum í ensku úrvalsdeildinni frestað.

„Ég tel að mér sé algjörlega batnað. Þegar við fengum hringinguna frá Olympiacos þar sem þeir létu okkur vita að við hefðum getað smitast þá fór ég að finna fyrir einkennunum. Ég fann einhvern veginn á mér að ég væri smitaður," sagði Arteta við vef Arsenal.

„Síðan rann upp fyrir mér ljós. Vá, við gætum allir verið smitaðir, þetta er mjög alvarlegt, og síðan byrjaði maður að hugsa um alla þá sem maður hefði umgengist, sem og fólk sem tengdist okkur. Þá fór óttinn að gera vart við sig," sagði Arteta og upplýsti að eiginkona sín og barnfóstran þeirra hefðu einnig smitast.

„Hvað einkennin varðar þá var þetta eins og venjuleg flensa. Ég var frekar slappur í þrjá til fjóra daga, var með hita og þurran hósta og smá óþægindi fyrir brjóstinu. Það var nú allt og sumt. Vandamálið var fjölskyldan, við eigum þrjú börn og ég hafði áhyggjur. Konan mín komst í gegnum þetta og barnfóstran líka. Börnin fengu ekkert, guði sé lof. Við erum öll stálslegin núna," sagði Arteta.

Hann þakkaði starfsliðinu hjá Arsenal fyrir að halda leikmönnum liðsins á tánum á meðan hann var í burtu. Liðið fór allt í sóttkví og Arteta sagði að nú myndu leikmennirnir halda áfram með einstaklingsprógramm hver fyrir sig þangað til liðið gæti hafið æfingar saman á ný.

„Það er á þessum erfiðu stundum sem þú kynnist fólki besti og sérð hvernig það bregst við, hvernig það hugsar og hvernig það forgangsraðar hlutunum. Ég hef átt gríðarlegan fjölda símtala við alla stjórnarmenn féalgsins, allt starfsliðið mitt, alla leikmennina og fundið hversu meðvitaðir allir eru og hversu ákafir allir eru um að gera sitt besta. Vera með stöðuna á hreinu og gera hlutina sem auðveldasta fyrir félagið - það hefur verið ótrúlegt," sagði Mikel Arteta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert