Fleiri vilja aflýsa tímabilinu á Englandi

Fyrsti titill Liverpool í 30 ár er í mikilli hættu.
Fyrsti titill Liverpool í 30 ár er í mikilli hættu. AFP

Æ fleiri félög í ensku úrvalsdeildinni vilja aflýsa yfirstandandi tímabili vegna kórónuveirunnar. Áður höfðu félögin komist að samkomulagi um að gera allt sem hægt væri til að klára tímabilið, en vegna alvarleika útbreiðslu veirunnar á Englandi, fjölgar félögum sem skipt hafa um skoðun. 

The Athletic greinir frá því að valdamiklir menn í enska boltanum telji að ekkert pláss sé fyrir íþróttir í samfélaginu í dag. Fyrsti Englandsmeistaratitill Liverpool í 30 ár er því í mikilli hættu, en liðið er með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar. 

Miðillinn hefur eftir ónafngreindum fulltrúa úrvalsdeildarinnar að talsmenn ensku úrvalsdeildarinnar hagi sér eins og frekir krakkar og réttast í stöðunni væri að aflýsa tímabilinu.

„Faraldurinn verður bara verri á Bretlandseyjum. Við verðum að halda okkur heima næstu 2-3 mánuði og komast í gegnum þetta. Þetta snýst ekki um að leikmenn byrji að æfa aftur. Þetta er stærra,“ sagði hann við Athletic. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert