Fótboltamánuður með leik á hverjum degi

Steve Bruce hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig best væri …
Steve Bruce hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig best væri að ljúka keppnistímabilinu á Englandi. AFP

Steve Bruce, knattspyrnustjóri Newcastle, segir að þegar loksins verði hægt að halda áfram með fótboltann og ljúka keppnistímabilinu á Englandi væri best að gera það með sannkallaðri fótboltaveislu þar sem boðið yrði upp á úrvalsdeildarleik eða leiki á hverjum degi.

„Við viljum ljúka þessu tímabili, sama hvað það hefur í för með sér. Það vilja allir. Við getum haldið „fótboltamánuð“ þar sem spilað er á hverjum degi og hvert lið leikur tvo til þrjá leiki í hverri viku," segir Bruce við Daily Telegraph.

„Það er auðvitað ekki það besta en fyrst við getum spilað tíu til fimmtán leiki í desember og framan af janúar þá getum við líka gert það til að ljúka tímabilinu. Það þýðir eflaust að við þurfum að seinka næsta tímabili, fórna einni bikarkeppni og sætta okkur við að sleppa vetrarfríi, en þetta er allt hægt. Við finnum leið," segir Bruce en keppni á Englandi hefur verið frestað til 30. apríl vegna kórónuveirunnar.

Níu umferðum er ólokið í úrvalsdeildinni, og níu umferðum auk umspils í B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert