United vill klára allar keppnir

Manchester United er enn í baráttunni í Evrópudeildinni og enska …
Manchester United er enn í baráttunni í Evrópudeildinni og enska bikarnum. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United styður þær hugmyndir um að klára allar yfirstandandi keppnir á Englandi og í Evrópu þegar ástandið vegna kórónuveirunnar batnar. United var í Meistaradeildarbaráttu í úrvalsdeildinni og enn í enska bikarnum og Evrópudeildinni þegar öllum keppnum var frestað. 

„Félagið styður hugmyndir annarra félaga um að klára tímabilið í ensku deildinni, bikarkeppnum og í Evrópukeppnum,“ segir í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í dag. Þar kom einnig fram að félagið hafi áhuga á að spila leiki fyrir luktum dyrum, þurfi þess. 

Forráðamenn ensku deildarinnar tóku ákvörðun um að fresta öllum leikjum í enska fótboltanum til 30. apríl hið minnsta og er framhaldið í mikilli óvissu. Þá var leikjum í Evrópukeppnum einnig frestað og er óvíst hvort eða hvenær tímabilið haldi áfram.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert