Vill bara komast aftur til Englands

Philippe Coutinho í leik með Bayern gegn Chelsea í Meistaradeild …
Philippe Coutinho í leik með Bayern gegn Chelsea í Meistaradeild Evrópu. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Philippe Coutinho vill bara fara aftur til Englands en hefur ekki áhuga á öðru, að sögn spænska dagblaðsins Mundo Deportivo.

Barcelona keypti Coutinho frá Liverpool fyrir 160 milljónir evra í janúar 2018 og þar með varð hann næstdýrasti knattspyrnumaður heims.

Hann hefur hins vegar átt erfitt uppdráttar hjá Katalóníustórveldinu þar sem hann hefur skorað 13 mörk í 52 leikjum í spænsku 1. deildinni, og leikur nú sem lánsmaður með Bayern München.

Coutinho, sem er 27 ára gamall og hefur skorað 17 mörk í 61 landsleik fyrir Brasilíu, vill komast burt frá Barcelona í sumar. Bayern hefur forkaupsrétt á honum en bæði Inter Mílanó og París SG hafa verið sögð mjög áhugasöm um að fá Brasilíumanninn í sínar raðir.

En samkvæmt Mundo Deportivo hefur Coutinho alfarið sett stefnuna á England þar sem hann átti góðu gengi að fagna sem leikmaður Liverpool í fimm ár. Hann skoraði 41 mark í 152 leikjum með liðinu í ensku úrvalsdeildinni, alls 54 mörk í 201 mótsleik, og naut mikilla vinsælda hjá stuðningsmönnum félagsins. Hann virðist þó alls ekki á leið aftur á Anfield en þar á bæ hefur fregnum um mögulega endurkomu hans  verið vísað á bug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert