Alveg sama um áhuga Chelsea

Manuel Neuer hefur ekki áhuga á því að yfirgefa Þýskaland.
Manuel Neuer hefur ekki áhuga á því að yfirgefa Þýskaland. AFP

Manuel Neuer, fyrirliði knattspyrnuliðs Bayern München, hefur ekki áhuga á því að yfirgefa félagið í sumar en það eru þýskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Neuer var í gær orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea í enskum miðlum en Chelsea vill fá Neuer til þess að fylla skarð Kepa Arrizabalaga hjá félaginu sem gæti farið aftur til Spánar í sumar.

Neuer er orðinn 34 ára gamall en hann hefur leikið með Bayern München frá árinu 2011. Hann kom til félagsins frá Schalke en Neuer verður samningslaus sumarið 2021. Honum er því frjálst að ræða við önnur félög í janúar 2020 en Bayenr gæti freistast til þess að selja markmanninn í sumar á meðan þeir fá eitthvað fyrir hann.

Alexander Nübel mun ganga til liðs við Bæajara í sumar frá Schalke en honum er ætlað að berjast við Neuer um stöðuna hjá félaginu. Bæjarar sjá Nübel sem framtíðarmarkvörð félagsins en hann er einungis 23 ára gamall. Bæjarar hafa ekki ennþá boðið Neuer nýjan samning en hann verður 35 ára í mars á næsta ári.

mbl.is