Átta með kórónuveirueinkenni

West Ham er sem stendur í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar …
West Ham er sem stendur í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 27 stig. AFP

Átta leikmenn enska knattspyrnufélagsins West Ham í ensku úrvalsdeildinni eru með kórónuveirueinkenni en þetta staðfesti Karren Brady, aðstoðarframkvæmdastjóri félagsins, í samtali við enska fjölmiðla. Einkennin eru hins vegar væg en alls eru rúmlega 14.500 manns smitaðir á Bretlandi og þar af eru 759 manns látnir.

„Átta leikmenn West Ham eru með einkenni veirunnar en sem betur fer eru einkennin afar væg,“ sagði Brady. „Allir leikmennirnir eru nú í einangrun ásamt fjölskyldum sínum og þeim heilast vel. Þetta er samt ágætis áminning fyrir okkur hin að það þarf ekki nema einhver að hnerra í kringum okkur og við gætum verið smituð af veirunni.“

„Það er enginn öruggur fyrir þessari veiru og því þurfa allir að leggjast á eitt, fylgja fyrirmælum stjórnvalda, og halda sig heima,“ bætti Brady við. Til stóð að enska úrvalsdeildin myndi hefjast á nýjan leik í byrjun apríl en því hefur nú verið frestað fram í maí í fyrsta lagi. Þá hefur einnig verið í umræðunni að deildin verði hreinlega blásin af vegna þeirra hamfara sem nú ganga yfir.

mbl.is