Enginn vildi hann jafn mikið og Ferguson

Sir Alex Ferguson og Cristiano Ronaldo.
Sir Alex Ferguson og Cristiano Ronaldo. PHIL NOBLE

Umboðsmaðurinn Jorge Mendes hefur sagt söguna af því hvernig Manchester United hafði betur gegn Liverpool og Arsenal í baráttunni um undirskrift Cristiano Ronaldo frá Sporting í Portúgal sumarið 2003.

Mendes hefur verið umboðsmaður portúgölsku stjörnunnar alla tíð en árið 2003 var hann 18 ára gamall og enn hjá uppeldisfélagi sínu í Lissabon þegar Sir Alex Ferguson mætti með Manchester United á svæðið til að spila æfingaleik.

Liverpool og Arsenal voru langt á undan United í kapphlaupinu um Portúgalann efnilega en allt breyttist þegar Ronaldo fór illa með varnarmenn United í æfingaleiknum örlagaríka. „Ég hef alltaf sagt að þjálfarinn er mikilvægasti hlekkurinn í öllum félagsskiptum. Cristiano Ronaldo er fullkomið dæmi um það,“ sagði Mendes í viðtali við Sport Business.

„Öll félög vildu Ronaldo, en þau vildu líka öll að hann yrði áfram hjá Sporting að láni í eitt ár til viðbótar. Það var bara einn maður sem vildi fá hann strax, og það var Sir Alex Ferguson.“

Þó spilamennska Ronaldo hafi verið slitrótt fyrst um sinn í Manchester var ljóst að um bráðefnilegan leikmann var að ræða. Portúgalinn var valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum United eftir fyrsta tímabilið og hefur hann átt ótrúlegan knattspyrnuferil síðan.

„Hjá United spilaði hann helmingi fleiri leiki en hann hefði gert hjá Sporting, og þeir völdu hann besta leikmann ársins í Manchester. Ronaldo var svo frábær í þessum leik gegn United að Ferguson vildi ekki fara í rútuna og aftur upp á flugvöll fyrr en búið væri að ganga frá kaupum á honum.“

mbl.is