Í lagi ef Liverpool verður meistari

Ilkay Gündogan
Ilkay Gündogan AFP

„Það væri í lagi ef Liverpool yrði krýndur meistari þótt við náum ekki að klára tímabilið. Þú verður að vera sanngjarn,“ sagði Ilkay Gündogan, leikmaður Manchester City, í samtali við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF. 

Framhald ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta er í mikilli óvissu og óvíst hvort hægt verði að klára tímabilið. Liverpool var með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar þegar hún fór í frí vegna kórónuveirunnar. 

Liverpool vann 27 af 29 deildarleikjum sínum áður en öllum leikjum deildarinnar var frestað, en ef allt fer á versta veg gæti tímabilinu verið aflýst og enginn verður krýndur meistari. Gündogan er sem stendur í sóttkví í Manchester. 

„Þetta er ekki auðveld staða. Við höfum aldrei upplifað svona áður og maður þorir varla að fara í 10 mínútna göngutúr,“ sagði Þjóðverjinn. 

mbl.is