Stríð án enda

Arsenal og Tottenham etja kappi á Emirates-leikvanginum síðasta haust.
Arsenal og Tottenham etja kappi á Emirates-leikvanginum síðasta haust.

Stríð hefur geisað í norðurhluta Lundúnaborgar í meira heila öld. Hinar stríðandi fylkingar eru knattspyrnufélögin Arsenal og Tottenham Hotspur og eru kærleikar þeirra í millum vægast sagt litlir eftir ótrúlega uppákomu árið 1919.

Stríð þetta má rekja aftur til ársins 1913. Arsenal var á þeim tíma blásnautt félag með lítið fylgi í leit að nýjum höfuðstöðvum. Liðið hafði fallið í 2. deild um vorið og stjórnarformaðurinn, Sir Henry Norris, sem hafði mikinn metnað fyrir hönd Arsenal, sá að eina leiðin til að gera það að stórveldi var að yfirgefa heimavöllinn, Manor Ground, í suðvesturhluta borgarinnar. Aðgengi almennings að vellinum var ekki nægilega gott og því nauðsynlegt að róa á önnur mið.

Eftir japl, jaml og fuður fann Norris stað fyrir hinn nýja heimavöll í Norður-Lundúnum, nánar tiltekið í Highbury-hverfinu í Islington. Hann tók þar á leigu land í eigu Guðfræðiháskóla St. John's. Staðurinn var í fjölmennu hverfi og það sem mestu máli skipti steinsnar frá næstu neðanjarðarlestarstöð, Gillespie Road. Sú stöð er aðdáendum Arsenal að góðu kunn en hún ber nú nafn félagsins. Þökk sé Norris.

Arsenal hugði gott til glóðarinnar en nágrannaliðunum, Tottenham Hotspur og Clapton Orient, var ekki skemmt enda bæði í minna en fjögurra mílna fjarlægð frá Highbury. Tottenham hafði varið stórfé til uppbyggingar á heimavelli sínum, White Hart Lane, og hafði lítinn áhuga á því að deila hylli íbúa hverfisins með öðru félagi. Vildi það burt af sínu yfirráðasvæði. Flutningurinn var því kærður til stjórnar deildarkeppninnar. Nokkuð sem ekki hafði gerst í annan tíma. Kærunni var þó vísað frá enda engin lög sem gátu bannað flutning af þessu tagi.

Stríðið milli Arsenal og Tottenham var hafið.

Henry gamli Norris var með ráð undir rifi hverju,
Henry gamli Norris var með ráð undir rifi hverju,


Bragðarefurinn Norris

Þetta er þó hégilja samanborið við það sem gerðist næst. Arsenal barðist áfram í bökkum þrátt fyrir flutninginn og síðasta veturinn áður en heimsstyrjöldin fyrri skall á hafnaði liðið í fimmta sæti í 2. deild. Tottenham átti líka erfitt uppdráttar þann vetur, varð í neðsta sæti í 1. deild. Áður en keppni hófst á ný haustið 1919 var ákveðið að fjölga liðum í 1. deild úr 20 í 22. Þetta hafði verið gert nokkrum sinnum áður og reglurnar sáraeinfaldar, efstu tvö liðin í 2. deild komu upp og neðstu tvö í 1. deild héldu sætum sínum. Við blasti að gera þetta með sama hætti. Sir Henry Norris var á öðru máli.

Hann hafði verið sleginn til riddara árið 1917 og sat þegar hér er komið sögu á breska þinginu. Mánuðina á undan notaði hann því öll sín áhrif til að "tala" Arsenal upp í 1. deild - á kostnað Tottenham. Norris lét það ekki hafa nein áhrif á sig að Arsenal hafði lent í 5. sæti í 2. deild veturinn fyrir stríð. Það var aukaatriði.

Fljótt á litið virtist Norris ekki hafa nein efnisleg rök fyrir máli sínu. Hann brá því á það ráð að gera keppni í deildinni veturinn 1914-15 tortryggilega.

Orðrómur hafði verið um að lið og leikmenn hefðu haft rangt við þennan vetur og eftir dúk og disk féll dómur í einu slíku máli.

Manchester United og Liverpool voru þá dæmd fyrir að hagræða úrslitum í innbyrðisleik liðanna. United hafði farið með sigur af hólmi, 2:0, sem þýddi að liðið hafði skriðið upp fyrir Chelsea í 18. sæti og þar með sloppið við fall. Norris notaði þetta til að benda á að sitthvað væri rotið í Danaveldi. Það skal þó tekið fram að ekki lék grunur á því að botnliðin tvö, Chelsea og Tottenham, hefðu óhreint mjöl í pokahorninu.

Hvaða fortölum Norris beitti stjórnarformenn annarra félaga verður alltaf ráðgáta. En hann fékk sínu framgengt á fundi sem haldinn var um málið sumarið 1919.

Fundurinn fór vel af stað. Toppliðin tvö í 2. deild, Derby County og Preston North End, voru einróma kosin upp í 1. deild og enginn ágreiningur var um það að næstneðsta liðið í 1. deild, Chelsea, héldi sæti sínu. Svo féll sprengjan.

John McKenna, stjórnarformaður Liverpool og aldavinur Norris, bar upp tillögu þess efnis að Arsenal hlyti síðasta lausa sætið í 1. deild en ekki Tottenham. Rök hans voru þau að Arsenal hefði þjónað deildarkeppninni betur gegnum tíðina og verið þar fimmtán árum lengur en Tottenham.

Harry Kane skorar iðulega í leikjum sínum fyrir Tottenham gegn …
Harry Kane skorar iðulega í leikjum sínum fyrir Tottenham gegn Arsenal. AFP


Fundað í Undralandi?

Þetta voru vitaskuld haldlaus rök enda hafði deildin aldrei verið rekin á þeim forsendum að reyndari félög væru rétthærri en önnur. Þar fyrir utan höfðu Úlfarnir, sem höfnuðu í 4. sæti í 2. deild 1915 - einu fyrir ofan Arsenal - verið aðilar að deildarkeppninni fjórum árum lengur en Lundúnaliðið.

Stjórnarformaður Spurs, Charlie Roberts, hefur líkast til haldið að hann væri staddur í Undralandi og tókst ekki að tína til nein frambærileg mótrök. Því næst var gengið til atkvæða. Arsenal fékk 18 atkvæði, Tottenham 8, Barnsley (sem varð í þriðja sæti í 2. deild) 5, Úlfarnir 4, Nottingham Forest (sem varð í 19. sæti í 2. deild) 3, Birmingham City 2 og Hull City 1. Fundi var slitið. Arsenal myndi leika í 1. deild en Tottenham Hotspur í annarri.

Enginn veit fyrir víst hvernig þetta gat gerst en lengi á eftir var á kreiki orðrómur þess efnis að fé hefði verið borið á menn. Það sem mælir gegn því er hins vegar sú staðreynd að peningar uxu ekki beinlínis á markstöngunum á Highbury á þessum tíma. Hitt er líklegra að völd og virðing Sir Henry Norris hafi riðið baggamuninn. Hann var aðalsmaður sem sat á þingi og menn af því tagi voru ekki á hverju strái í knattspyrnuheiminum á þessum árum. Hann hefur því að líkindum verið í aðstöðu til að launa velgjörðarmönnum Arsenal greiðann síðar.

Thierry Henry naut grannaslagsins yfirleitt í botn. Stephen Carr ugglaust …
Thierry Henry naut grannaslagsins yfirleitt í botn. Stephen Carr ugglaust líka. AFP


Það breytir ekki því að réttlætinu var gróflega misboðið á téðum fundi og flestir eru sammála um að aldrei hafi önnur eins ósvinna átt sér stað í sögu ensku knattspyrnunnar. Því munu stuðningsmenn Tottenham Hotspur aldrei gleyma. Til að gera illt verra hefur Arsenal ekki fallið úr efstu deild síðan 1919. Hefur verið þar langlengst allra liða samfellt. Everton kemur næst, vann sér þar síðast sæti árið 1954.

Þetta er hluti af grein um ríginn milli Arsenal og Tottenham sem upphaflega birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. mars 2006. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »