Útilokar ekki að yfirgefa Tottenham

Harry Kane á æfingu með Tottenham.
Harry Kane á æfingu með Tottenham. AFP

Harry Kane, einn besti framherji heims, viðurkenndi í samtali við Sky Sports í dag að hann gæti yfirgefið Tottenham einhvern daginn. 

„Ég mun alltaf elska Tottenham en ef við erum ekki að þróast sem lið og í leiðina í rétta átt, mun ég ekki vera áfram bara til að vera áfram. Ég hef mikinn metnað og ég vil verða einn sá besti í heimi. Ég get ekki staðfest að ég verði hérna að eilífu, en hver veit?“ sagði Kane. 

Hann viðurkennir að það sé pirrandi að hann hafi ekki unnið titil með Tottenham til þessa, en José Mourinho tók við af Mauricio Pochettino í nóvember. 

„Við erum með frábært lið en því miður hefur ekki tekist að vinna titil. Það er erfitt að sætta sig við það sem leikmaður. Ég vill vinna allt og það er erfitt að hafa ekki unnið neitt. Við sjáum hvað gerist þegar stjórinn fær sitt fyrsta heila tímabil og undirbúningstímabil,“ sagði framherjinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert