Andlegur styrkur fyrir þjóðina að koma fótboltanum af stað

Verða síðustu níu umferðirnar spilaðar sem hraðmót í júní og …
Verða síðustu níu umferðirnar spilaðar sem hraðmót í júní og júlí? AFP

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu og liðanna í deildinni ræddu ítarlega um helgina möguleikana á að halda áfram keppni og eru samkvæmt Independent komnir með tvennskonar plön sem fá bestar undirtektir.

Annars vegar að spila leikina á hefðbundinn hátt á heimavöllum liðanna en án áhorfenda, og hinsvegar að spilað verði á einum og sama staðnum þar sem öll liðin haldi til í einangrun. Independent segir að síðarnefnda hugmyndin hafi fengið aukið fylgi síðustu daga.

Mikill þrýstingur er á félögunum vegna sjónvarpssamninga og annarra fjárhagsmála um að ljúka tímabilinu og í skoðun er að sýna alla leikina beint í sjónvarpi og spila nokkra leiki á dag á hverjum degi í stuttan tíma í sumar.

Til að þetta gangi eftir þurfa leikmennirnir og starfslið félaganna að vera í einangrun á hótelum, svipað og um alþjóðlegt stórmót væri að ræða, en með aðstöðu fyrir sýnatökur og sóttkví til að halda kórónuveirunni frá leikmönnunum.

Horft er til að spila í júní og júlí þar sem þá verði væntanlega komið mun betra skipulag á sýnatöku á Bretlandseyjum en í dag og faraldurinn verði í rénun. Mörg vandamál eru þó enn óleyst, ekki síst hvað varðar heilsufar og möguleg slys á leikmönnum, því breska heilbrigðiskerfið sinnir engu öðru en neyðartilfellum vegna útbreiðslu veirunnar.

„Hvað verður gert við leikmann sem slítur krossband eða fótbrotnar? Sjúkrahúsin hafa önnur og  stærri vandamál að glíma við. Úrvalsdeildin þyrfti að hafa sérstakt sjúkrahús fyrir sig," sagði viðmælandi Independent um málið.

En hugmyndirnar um að ljúka keppni í úrvalsdeildinni á miðju sumri eru sagðar fá góðan stuðning frá ráðamönnum landsins. Endurkoma fótboltans yrði stórt skref í að koma daglegu lífi aftur í réttar horfur í landinu og gæti verið andlegur styrkur fyrir þjóðina. Fótboltinn myndi líka hjálpa til við að koma atvinnulífinu í landinu aftur af stað vegna þess hve margskonar hliðaráhrif hann myndi hafa á aðrar atvinnugreinar.

mbl.is