Fyrirliði Villa skammast sín verulega

Jack Grealish.
Jack Grealish. AFP

Jack Grealish, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Aston Villa, hefur beðist afsökunar á að hafa brotið útgöngubann og fyrir að keyra á tvo kyrrstæða bíla á sunnudagsmorgun. 

Grealish keyrði Range Rover-bifreið sína á tvo kyrrstæða bíla eftir að hafa heimsótt vin sinn. Félagið sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið það sem það lýsti yfir vonbrigðum með uppátæki fyrirliðans. 

Verður hann sektaður um dágóða upphæð sem rennur óskert til háskólasjúkrahússins í Birmingham. Aðeins um sólarhring áður en Grealish klessti bílinn, birti hann myndband á Twitter þar sem hann bað fólk um að halda sig heima og virða samkomubann. 

„Ég vil bara koma á framfæri hversu verulega ég skammast mín. Ég veitað það er erfitt fyrir alla að vera lokaðir inni svona lengi. Vinur hringdi til mín og ég tók þá heimskulegu ákvörðun að heimsækja hann. Ég vil ekki að neinn geri sömu mistök og ég,“ sagði Grealish. 

mbl.is