Fyrrverandi Eyjamaður með mark mánaðarins

Charles Vernam í baráttu við Daða Ólafsson í leik með …
Charles Vernam í baráttu við Daða Ólafsson í leik með ÍBV gegn Fylki árið 2016. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrrverandi leikmaður ÍBV í fótboltanum var í dag verðlaunaður fyrir að skora fallegasta mark febrúarmánaðar í ensku D-deildinni.

Það er kantmaðurinn Charles Vernam hjá Grimsby Town en hann lék hálft tímabilið 2016 sem lánsmaður hjá ÍBV frá Derby County. Hann spilaði níu leiki í úrvalsdeildinni og skoraði eitt mark áður en hann sneri aftur til Englands á miðju sumri.

Vernam náði ekki að vinna sig í lið hjá Derby, var lánaður til Coventry í C-deildinni veturinn eftir en gekk sumarið 2018 til liðs við Grimsby og hefur leikið þar síðan.

Mark sem hann skoraði fyrir Grimsby gegn Colchester 11. febrúar var í dag valið mark mánaðarins. Hann skoraði það eftir glæsilegan sprett frá eigin vítateig þar sem hann lék á þrjá mótherja í leiðinni.

Vernam og félagar í Grimsby sigla lygnan sjó í 13. sæti af 24 liðum þegar níu umferðum er ólokið í D-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert