Virkur í hjálparstarfi í Manchester

Marcus Rashford er í góðum tengslum við börnin í Manchester.
Marcus Rashford er í góðum tengslum við börnin í Manchester. AFP

Marcus Rashford, framherji Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu, situr ekki auðum höndum þessa dagana þótt fótboltamenn geti ekki æft nema einir og sér vegna kórónuveirunnar.

Rashford er mjög virkur í starfsemi góðgerðarstofnunarinnar FareShare sem styður við bakið á börnum á Manchester-svæðinu eftir að skólum var lokað vegna faraldursins sem hefur lagst þungt á Bretlandseyjar. 

Rashford sér þar um að fara með matarsendingar til barna sem hafa treyst á ókeypis máltíðir í skólunum.

„Ég hef undanfarin ár komið að aðstoð við börn á ýmsan máta og þegar ég heyrði að það væri verið að loka skólunum vissi ég að mörg börn yrðu af þeim máltíðum sem þau fengju annars í skólanum. Ég man vel þegar ég var sjálfur í skóla að þá fékk ég ókeypis máltíðir, sem var eins gott því mamma kom ekki heim úr vinnunni fyrr en eftir klukkan sex á daginn. Ég var heppinn og það eru mörg börn í erfiðri aðstöðu og geta ekki treyst á að fá máltíðir heima fyrir,“ sagði Rashford samkvæmt Sky Sports.

mbl.is