Frá Liverpool til London?

Dejan Lovren hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Liverpool …
Dejan Lovren hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Liverpool undanfarin tvö ár. AFP

Króatíski knattspyrnumaðurinn Dejan Lovren mun að öllum líkindum yfirgefa Liverpool í sumar eftir sex ár á Anfield. Arsenal og Tottenham eru bæði sögð áhugasöm um miðvörðinn sem er þrítugur að árum. Hann gekk til liðs við Liverpool frá Southampton árið 2014 en Liverpool borgaði 20 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Lovren hefur færst aftar í goggunarröðina hjá Liverpool á undanförnum árum en þeir Virgil van Dijk, Joe Gomez og Joel Matip eru allir á undan honum í goggunarröðinni. Þá hefur Króatinn einnig verið mikið meiddur, undanfarin tvö tímabil, og því hefur honum gengið illa að vinna sér inn fast sæti í byrjunarliðinu.

Þá hafa Crystal Palace og West Ham einnig áhuga á leikmanninum sem verður að öllum líkindum ekki í miklum vandræðum með að finna sér nýtt félag. Lovren er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2021 en félagið er tilbúið að selja hann í sumar á meðan það fær eitthvað fyrir hann. Verðmiðinn á honum er í kringum 20 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert