Gylfi hélt að Ancelotti væri að grínast

Gylfi Þór Sigurðsson hefur spilað sem afturliggjandi miðjumaður undir stjórn …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur spilað sem afturliggjandi miðjumaður undir stjórn Carlo Ancelotti. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni, var í ítarlegu viðtali við heimasíðu Everton á dögunum þar sem ýmislegt forvitnilegt kom fram. Gylfi spilaði síðast fótbolta 8. mars síðastliðinn en enska úrvalsdeildin er nú í fríi vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina. Þrátt fyrir það hefur Gylfi verið duglegur að halda sér í formi en hann hefur æft einn undanfarnar vikur.

„Maður þarf í raun bara að sætta sig við það að sumt getur maður gert einn og svo eru aðrir hlutir sem maður getur einfaldlega ekki gert,“ sagði Gylfi í samtali við heimasíðu Everton. „Það eru mikilvægari hlutir en fótbolti í gangi í heiminum í dag en maður hefur aldrei verið í þeirri stöðu áður að geta ekki farið á æfingasvæðið sitt. Þetta eru sorglegir og jafnframt mjög skrítnir tímar.

Það er hins vegar auðvelt að halda sig bara heima með fjölskyldunni. Við lifum á óvissutímum og venjulega þegar maður fer í sumarfrí veit maður alltaf hvenær maður á að snúa aftur. Núna hefur maður ekki hugmynd um hvenær tímabilið fer aftur af stað og þess vegna verður maður að vera vel undirbúinn. Ég er mjög heppinn að ég er með æfingasal heima hjá mér sem nýtist mér mjög vel núna.“

Carlo Ancelotti tók við stjórnartaumunum hjá Everton 21. desember síðastliðinn …
Carlo Ancelotti tók við stjórnartaumunum hjá Everton 21. desember síðastliðinn af Marco Silva. AFP

Nýtt hlutverk undir stjórn Ancelottis

Gylfi hefur fengið nýtt og óvænt hlutverk í liði Everton eftir að Ítalinn Carlo Ancelotti tók við stjórnataumunum hjá félaginu í desember 2019.

„Ég vissi ekki hvort hann væri að grínast eða ekki þegar hann bað mig að spila sem afturliggjandi miðjumaður. Ég hef þurft að breyta mínum leik og ég þarf núna að hugsa um fullt af hlutum sem ég hafði í raun aldrei pælt neitt í þannig lagað. Til dæmis þegar við erum að sækja, þá þarf ég að sitja til baka, nokkuð sem ég er óvanur að gera, og sjá til þess að liðið sé vel í stakk búið til þess að verjast ef við töpum boltanum.

Ég elska að skora mörk og koma mér inn í teiginn og mitt markmið í fótboltanum hefur alltaf verið að skora mörk og búa eitthvað til. Það tók mig þess vegna smá tíma að venjast þessu nýja hlutverki en ég get alveg sagt það núna að ég nýt þess að spila aftarlega á miðjunni í dag. Ef ég hefði verið beðinn að spila þessa stöðu fyrir fimm til sex árum hefði ég samt ekki verið neitt sérstaklega sáttur,“ bætti Gylfi við.

mbl.is