Óttaðist um líf sitt

Pepe Reina átti erfitt með andardrátt eftir að hafa greinst …
Pepe Reina átti erfitt með andardrátt eftir að hafa greinst með kórónuveiruna. AFP

Pepe Reina, markvörður hjá ítalska knattspyrnufélaginu AC Milan og lánsmaður hjá enska knattspyrnufélagsins Aston Villa, greindist með kórónuveiruna á dögunum en er nú óðum að jafna sig. Reina upplifði miklar kvalir á meðan hann barðist við veiruna en hann átti erfitt með andardrátt á köflum og óttaðist um líf sitt. 

„Ég er loksins að sigrast á baráttunni við þessa veiru,“ sagði Reina, sem er orðinn 37 ára gamall, í samtali við enska fjölmiðla á dögunum. „Verstu augnablikin í baráttunni við veiruna voru þegar að ég átti erfitt með andardrátt. Ég var svo gott sem súrefnislaus í einhverjar 25 mínútur og þetta var versta upplifun sem ég hef lent í.“

„Ég hef haldið mig innandyra í faðmi fjölskyldunnar frá því að ég greindist en eftir að ég átti erfitt með andardrátt þá þorði ég varla út úr húsinu. Fótbolti er svo langt frá því að vera forgangsatriði hjá fólki núna og deildakeppnir skipta litlu máli. Það sem skiptir fyrst og fremst máli í dag er heilsa og líf fólks,“ bætti markmaðurinn við.

mbl.is