Rætt um Skagamann á stærstu íþróttastöð Bretlands

Sigurður Jónsson þótti einn efnilegasti leikmaður Evrópu og var meðal …
Sigurður Jónsson þótti einn efnilegasti leikmaður Evrópu og var meðal annars undir smásjánni hjá Barcelona. mbl.is/Árni Sæberg

Skagamaðurinn Sigurður Jónsson var til umræðu hjá þeim Alan Smith, Graeme Souness og Jamie Carragher í hlaðvarpsþætti þeirra. Vinna þeir allir hjá Sky Sports, stærstu íþróttastöð Bretlands. 

Þremenningarnir ræddu um leikmenn sem ekki komust eins langt og vonir stæðu til. Sigurður var gríðarlega sterkur leikmaður á sínum tíma og gekk hann í raðir enska stórliðsins Arsenal árið 1989. 

Á tveimur árum hjá Arsenal skoraði hann eitt mark í átta leikjum, en hann glímdi við erfið bakmeiðsli. „Sigurður Jónsson kom upp í hugann á mér. Graeme, þú fótbraust hann í landsleik og manst örugglega eftir honum,“ byrjaði Alan Smith. 

„Hann var miðjumaður sem kom frá Sheffield Wednesday. Hann var góður á boltanum og fékk boltann frá miðvörðunum. Hann var mjög hæfileikaríkur en bakmeiðsli fóru illa með hann og að lokum þurfti hann að hætta. Hann hefði getað komist í hæsta gæðaflokk,“ sagði Smith.

Arsenal liðið var meistari þegar það keypti Sigurð og þurfti að greiða talsvert fyrir hann því Wednesday vildi síður láta hann fara. Sigurður var í leikmannahópi Arsenal sem varð meistari 1991 en vegna meiðsla lék hann fáa leiki. Hann náði sér hinsvegar aftur á strik með Skagamönnum og lék eftir það sem atvinnumaður í Svíþjóð og Skotlandi um árabil.

Landsleikurinn sem Smith vísar í er leikur Íslands og Skotlands á Laugardalsvellinum árið 1985 eða í undankeppni HM 1986. Brot Souness var mjög ljótt og töluvert um það fjallað á sínum tíma. Sigurður var borinn af velli en slapp betur en á horfðist með ökklameiðsli. Hann var þá 18 ára og var nýbyrjaður að spila með Sheffield Wednesday í efstu deild Englands.

mbl.is