Viðvörun fyrir að gera grín að Norðmanninum

Frá leik PSG og Dortmund.
Frá leik PSG og Dortmund. AFP

Franska knattspyrnufélagið PSG fékk í dag formlega viðvörun frá UEFA fyrir fagnaðarlæti leikmanna liðsins er það sló Borussia Dortmund úr leik í Meistaradeild Evrópu fyrr í mánuðinum. 

Erling Braut Haaland skoraði bæði mörk Dortmund í 2:1-sigri á heimavelli í fyrri leik liðanna og í báðum tilvikum fagnaði hann á sinn einstaka hátt; með því að fara í jógastellingu. 

PSG vann síðari leikinn 2:0 á heimavelli sínum og fór því áfram í átta liða úrslit. Neymar fagnaði fyrra marki liðsins á sama hátt og Haaland fagnar sínum mörkum og gerðu flestir leikmenn PSG grín að Norðmanninum með að fagna eins og hann í leikslok. 

UEFA var ekki hrifið af uppátækinu og hefur nú aðvarað PSG fyrir óíþróttamannslega framkomu. 

mbl.is