Skorar á leikmenn að styrkja baráttuna

Harry Redknapp stýrði síðast Birmingham árið 2017 en áður m.a. …
Harry Redknapp stýrði síðast Birmingham árið 2017 en áður m.a. QPR, Tottenham, Portsmouth og Southampton. AFP

Harry Redknapp, sem var knattspyrnustjóri margra félaga á Englandi um árabil, skorar á leikmenn úrvalsdeildarinnar að leggja sitt af mörkum í baráttunni við kórónuveiruna í landinu.

„Ég myndi vilja sjá leikmennina leggja fram styrki af  fúsum og frjálsum vilja. Þetta er kjörið tækifæri fyrir fyrirliða liðanna í úrvalsdeildinni að hringja sig saman og taka af skarið sjálfir - koma með fjárframlög að eigin frumkvæði.

Mikið frekar en að reyna að þvinga þá til að gera eitthvað slíkt, ef þeir vilja það ekki. Gefa af góðum hug ef þeir hafa efni á því. Flestir leikmenn í úrvaldsdeildinni hafa efni á því. Leikmenn í C- og D-deildunum eru hinsvegar ekki á neinum svakalaunum. 

Gerið þetta - það væri stórkostlegt. Það mun skila sér til baka. Slík framlög yrðu vel þegin og ljós að allir landsmenn myndu kunna að meta það," sagði Redknapp við Sky Sports.

mbl.is