Stjórinn og samstarfsmenn buðu umtalsverða launaskerðingu

Eddie Howe er knattspyrnustjóri Bournemouth.
Eddie Howe er knattspyrnustjóri Bournemouth. AFP

Eddie Howe knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Bournemouth og þrír af hans helstu samstarfsmönnum hafa tekið á sig umtalsverða launaskerðingu.

Félagið skýrði frá þessu fyrir stundu og segir að fjórmenningarnir hafi sjálfir átt frumkvæðið að því að laun þeirra yrðu lækkuð allverulega til að koma félaginu til aðstoðar á erfiðum tímum kórónuveirunnar.

Howe er uppalinn hjá Bournemouth og lék með félaginu í ellefu af þrettán tímabilum sínum sem leikmaður. Hann hefur síðan verið knattspyrnustjóri í tólf ár, frá 2008, að undanskildu rúmlega einu og hálfu ári sem hann var við stjórnvölinn hjá Burnley á árunum 2011 og 2012.

mbl.is